Á hverju heimili skal vera handslökkvitæki, eldvarnateppi og reykskynjari.

Til eru margar gerðir slökkvitækja sem hafa má á heimilum. Slökkvitæki á að vera við útgönguleið og vel sýnilegt. Mikilvægt er að allir á heimilinu viti hvar slökkvitæki eru geymd og hvernig á að beita þeim. Slökkvitæki þarf að yfirfara reglulega af viðurkenndum þjónustuaðilum. Algengustu tækin eru 6 kg dufttæki og 9 l léttvatnstæki. Kallið alltaf til slökkvilið ef kviknað hefur í til þess að tryggja að örugglega hafi tekist að slökkva eldinn.

Duftslökkvitæki eru ætluð á alla elda. Oft getur þó þurft að nota vatn á eftir til að tryggja að búið sé að slökkva alla glóð.

Léttvatnstæki eru með froðublöndu. Þau er hægt að nota á eld í föstum efnum og auk þess á eld í olíu og feiti. Varast skal að nota léttvatnstæki á rafmagnstæki sem eru í sambandi.

Sjónvarpsslökkvitæki er mjög góður öryggisbúnaður sem hægt er að koma fyrir í raftækjum eins og sjónvörpum, þvottavélum og þurrkurum. Prófanir hafa sýnt að tækin slökkva eldinn á mjög skömmum tíma og veita mikið öryggi.