Vatnslagnakerfi húsa skiptast í grófum dráttum í hitakerfi, neysluvatn og fráveitu. Mikilvægt er að einn til tveir heimilismenn hafi lágmarksþekkingu til að sinna umhirðu og eftirliti með kerfunum. Allir fullorðnir og stálpaðir heimilismenn þurfa að vita hvar á að loka fyrir vatnsinntök. Þau þurfa að vera merkt (heitt vatn/kalt vatn) og vel aðgengileg. Merkingar á vatnsinntök fást meðal annars í verslunum með lagnaefni. Niðurfall á að vera í gólfi þar sem vatnsinntök eru. Hreinsa á gólfniðurföll árlega og gæta þess að vatn komist óhindrað að þeim. Sjá þarf til þess að niðurföll í vöskum, baði og sturtu séu hrein.