Raki og hiti eru kjöraðstæður fyrir myglu. Þar sem raki kemst í byggingarefni er hætta á að mygla og rakasæknar lífverur nái að vaxa upp á skömmum tíma. Mikilvægt er því að bregðast við og þurrka eftir leka og vatnstjón. Tryggja þarf loftskipti á hverjum degi, ekki síst í votrýmum eins og eldhúsi, baðherbergi og þvottahúsi. 

Mikilvægt er að sinna viðhaldi utandyra vel. Tryggja þarf að vatn eigi ávallt greiða leið um niðurföll frá þökum, svölum og við kjallaradyr. Hreinsið lauf frá niðurföllum, ekki síst á haustin. Sýna ber sérstaka varúð þegar spáð er asahláku. Rakablettir í gluggum og við dyr benda til þess að viðhalds sé þörf. Vatn sem berst utan frá með gluggum, dyrum og sprungum getur skemmt lagnir og önnur byggingarefni í veggjum og valdið verulegu tjóni.