Alltof algengt er að vatnstjón verði í votrýmum íbúða. Í eldhúsi, á baði og í þvottahúsi þarf að gæta að fúgum milli flísa og þéttingum í kringum sturtubotn, baðkar og vaska og endurnýja eftir þörfum.

Gætið jafnframt að eftirfarandi:

• Ráðlegt er að hafa vatnsskynjara í eldhúsi, sérstaklega þar sem er að finna uppþvottavél, klakavél eða kaffivél sem er beintengd vatni. Einnig í baðherbergi og þvottahúsi, einkum ef niðurfall er ekki í gólfi. Vatnsskynjara er unnt að tengja við öryggiskerfi.
• Æskilegt er að skrúfað sé fyrir vatn þegar notkun þvotta- og uppþvottavéla er lokið. Eindregið er ráðlagt að gera það sé heimilið yfirgefið í lengri tíma, svo sem vegna sumarleyfa.
• Hafið þessar vélar aðeins í gangi þegar einhver er heima.
• Fylgjast þarf með tengingum lagna við vaska og vélar sem taka inn á sig vatn.
• Sé sírennsli í salerni þarf að stöðva það. Sírennsli veldur raka á lögnum sem getur skemmt bæði lagnirnar og nánasta umhverfi þeirra.
• Festa þarf frárennslisstúta þvotta- og uppþvottavéla vel og tryggja að frárennslisstútur þvottavélar nái yfir miðja hæð hennar svo hún tæmi sig eðlilega.
• Fylgjast þarf vel með þegar látið er renna í bað, vaska og sturtu.