Milljarða eignatjón, óþægindi og jafnvel heilsutjón verður vegna vatnsleka, raka og myglu á íslenskum heimilum ár hvert. Sumt af því bæta tryggingafélögin. Annað sitja heimilin uppi með.

Almenningur getur dregið verulega úr tjóni vegna vatnsleka. Annars vegar er unnt að grípa til margvíslegra ráðstafana til að minnka líkur á að vatnstjón verði á heimilum. Hins vegar geta fyrstu viðbrögðin við leka skipt sköpum um afleiðingarnar.

Viðbrögð við vatnstjóni

1. Lokið strax fyrir vatnsinntak. Þannig má koma í veg fyrir tjón eða draga úr því.
2. Gætið fyllstu varúðar þar sem heitt vatn flæðir vegna hættu á húðbruna.
3. Hringið í neyðarnúmerið 112 ef þið ráðið ekki sjálf við aðstæður eða teljið að fólki sé hætta búin.
4. Hafið strax samband við tryggingafélagið til að draga úr frekara tjóni, láta meta það, skoða möguleika á þurrkun og hefja endurbætur.