Fylgjast þarf með og bregðast við einkennum um leka eða skemmdar lagnir, svo sem breyttum lit á málningu, áferð parkets, bólum í málningu, múr eða dúk, lykt eða breytingu á lit og bragði vatns. Leki frá ofnum er algeng orsök vatnstjóns. Því þarf að fylgjast með ástandi þeirra og bregðast við, til dæmis ef fram kemur ryð eða kalkútfellingar á samskeytum og ef ofnakranar virka ekki sem skyldi.

Hafið samband við fagmann ef grunur leikur á að þörf sé á endurnýjun á lögnum og tækjum eða frágangi í votrýmum. Mjög mikilvægt er að lagnagrind sé yfirfarin reglulega. Í henni eru meðal annars öryggisloki og þrýstijafnari sem prófa þarf og skipta um ef virkni reynist skert. Mælt er með því að fá fagmann til slíks eftirlits ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti.