Æskilegur orkunýtniflokkur: A++
Staðsetning orkumerkinga: Á framhlið eða ofan á tækinu þannig að hún sjáist greinilega.

Húshitun með rafmagni er kostnaðarsöm og í því samhengi geta varmadælur verið góður kostur á þeim svæðum þar sem ekki er aðgangur að heitu vatni. Varmadælur geta komið í stað rafmagns, olíu, eldiviðar o.fl. til húshitunar og til hitunar á neysluvatni.

Hvaðan varminn er sóttur skiptir máli við val á varmadælu. Um getur verið að ræða loftvarma, bergvarma, jarðvarma eða vatnsvarma. 

Að ýmsu þarf að huga að þegar varmadæla er keypt. Þar má helst nefna:

 • Stærð húsnæðis.
 • Lofthæð.
 • Staðsetningu á landinu með tilliti til meðalhita.
 • Hitakerfi eins og ofnar, gólfhiti eða annað.
 • Byggingarefni eins og steinn eða timbur.
 • SEER gildi sem kemur fram á orkumerkimiða fyrir loft í loft varmadælur. Hátt gildi bendir til betri afkasta varmadælunnar til kælingar. SEER stendur fyrir seasonal energy efficient ratio.
 • SCOP gildi sem kemur fram á orkumerkimiða fyrir loft í loft varmadælur. Hátt gildi bendir til betri afkasta varmadælunnar til hitunnar. SCOP stendur fyrir seasonal coefficient of performance.

Hér fyrir neðan má lesa um helstu tegundir varmadæla sem notaðar eru hér á landi en þær hafa mismunandi virkni í mismunandi aðstæðum.

Jarðvarmadælur

 • Henta vel til heilsársnotkunar vegna jafns hitastigs jarðvegs. Þessar tegundir hafa þar af leiðandi meiri afköst en aðrar tegundir varmadælna.
 • Ofnakerfi
 • Dýrar í uppsetningu.
 • Þurfa minnst 300 m2 flöt fyrir lagnir.
 • Framleiða vatn til húshitunar og heitt vatn til neyslu.

Loft í vatn varmadælur

 • Henta vel til heilsársnotkunar.
 • Ofnakerfi
 • Útieiningin getur skapað hávaða.
 • Ódýrari í uppsetningu en jarðvarmadælur.
 • Afkastaminni en jarðvarmadælur.
 • Þurfa minna pláss en jarðvarmadælur.
 • Ryk getur verið utandyra sem blæs inn með varmadælunni.
 • Framleiða vatn til húshitunar og heitt vatn til neyslu.

Loft í loft varmadælur

 • Góð viðbót við rafmagn, olíu eða annarra orkugjafa í heilsárs húsnæðum og sumarbústöðum.
 • Þurfa pláss utanhúss á lóðinni.
 • Útieiningin getur skapað hávaða.
 • Ryk getur verið utandyra sem blæs inn með varmadælunni.
 • Hentar best í stórum, opnum rýmum.
 • Sér einungis fyrir hita til upphitunar húsnæðis en ekki neysluvatns.
 • Ódýrustu varmadælurnar en skila minnstum langtíma sparnaði.

Loft í loft varmadælur nýta hita andrúmslofts utandyra og blása heitu eða köldu lofti innanhúss. Til að varmadælan nái hámarksvirkni er mikilvægt að góð hitastýring sé  fyrir hendi. Góð hitastýring dregur úr álagi á ofnakerfið og þar af leiðandi næst hámarkssparnaður. Í mjög köldu veðri getur verið gott að notast við aðra orkugjafa eins og til dæmis eldivið. Loft í loft varmadælur henta vel fyrir lítil sumarhús. Hins vegar þarf að hafa í huga að þessar gerðir varmadæla spara ekki neysluvatn.