Í tilskipun 2010/30/ESB frá 19. maí 2010 er fjallað um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á orkutengdum vörum er greina frá notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum. Lög nr. 72/1994 og tilskipun 2010/30/ESB eru rammi um kröfur sem gerðar eru til einstakra vörutegunda, svo sem ýmissa heimilistækja, og settar eru fram í sérstökum reglugerðum fyrir hvern vöruflokk.

Tilgangurinn með orkumerkingum er að útvega hliðstæðar upplýsingar um orkunotkun vöru og þar af leiðandi hafa jákvæð áhrif á val neytenda. Reglugerðirnar sem heyra undir tilskipunina um orkumerkingar vara skilgreina útlit orkumerkinga og grunn til útreikninga fyrir orkuflokk tilgreindar vöru.

Evrópska efnahagssvæðið krefst þess að ákveðnar vörur skuli vera með orkumerkingar. Orkumerkingar gera neytendum betur kleift að velja vörur sem nota minnsta orku og þar af leiðandi takmarka orkunotkun og áhrif gróðurhúsalofttegunda á andrúmsloftið meðal Evrópusambandsríkjanna og Evrópska efnhagssvæðisins. Reglurnar um orkumerkingar eru þær sömu í öllum Evrópusambandsríkjunum og á Evrópska efnahagssvæðinu og er framfylgt með Evrópusambandstilskipunum.

Orkumerking gefur til kynna hvernig orkunýting vörunnar er á kvarðanum A +++ til G. Þetta er almennur kvarði og hver hópur hefur sinn eiginn kvarða með 7 stig. Til dæmis hafa ljósgjafar kvarðann E til A ++ og heimilistæki D til A +++.

Lögin gera þeim sem bjóða fram vörur skylt að láta neytendum í té og vekja athygli þeirra á upplýsingum um:

  • Orkunotkun.
  • Orkunýtni.
  • Hljóðstyrk.
  • Annað sem varðar rekstur þeirra og kveðið er á um í reglugerð fyrir viðkomandi vöruflokk.

Von er á nýjum orkumerkingum 2019 en samkvæmt nýju reglugerðinni munu flokkar fyrir orkumerkingar breytast og ná frá A til G og hætt verður að nota A+, A++ og A+++.

Orkumerkingar - orkusparnaður

Alþingi afgreiddi á 144. Löggjafarþingi lög um breytingu á lögum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl., nr. 72/1994, með síðari breytingum. Markmið laganna var að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/30/ESB frá 19. maí 2010 um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á orkutengdum vörum er greina frá notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum. Tilskipun 2010/30/ESB er ætlað að stuðla að því að orka sé notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti með því að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um orkunotkun vara sem nýta orku (e. energy related products). Tilskipunin leggur skyldur á herðar þess aðila sem markaðssetur vöru að láta neytendum í té upplýsingar um orkunotkun og orkunýtni vöru sem seld er eða leigð. Birgðasali skal taka saman tæknileg gögn og ber hann ábyrgð á því að upplýsingar á merkimiðum og vöruupplýsingablöðum séu réttar.