Markmiðið með tilskipun Evrópusambandsins um visthönnun orkutengdra vara er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum vara þegar kemur að framleiðslu, orkunýtni og losun gróðurhúsalofttegunda. Tilskipunin á að stuðla að sjálfbærri þróun og aukinni umhverfisvernd ásamt því að auka framboð orku á markaði. Tilskipunin setur fram kröfur til umhverfisverndar í vöruhönnun eftir vöruflokki. Visthönnun þýðir að fella eigi umhverfisþætti inn í vöruhönnun í því skyni að bæta vistvænleika vöru allan vistferil hennar.

Evrópusambandinu er heimilt að setja fram kröfur um orkunotkun vara. Kröfur um orkunotkun eru samhæfðar í ríkjum Evrópusambandsins og á Evrópska efnahagssvæðinu. Samhæfðar kröfur stuðla að minni framleiðslukostnaði sem skilar sér frekar til neytenda í hagstæðara vöruverði en ef einstök ríki hefðu sínar eigin kröfur.

Tilskipunin og viðeigandi reglugerðir um visthönnun orkutengdra vara

Markmið tilskipunarinnar er að efla vernd umhverfisins með því að draga úr ýmsum neikvæðum umhverfisáhrifum sem tengjast orkutengdum vörum. Tilskipunin felur framkvæmdastjórninni að setja fram kröfur sem orkutengdar vörur verða að uppfylla verður til að mega vera á markaði í Evrópusambandinu og á Evrópska efnahagssvæðinu. Tilskipunin gefur möguleika á að gefa út reglugerðir um kröfur fyrir sérhverjar vörur um orkunýtingu og aðra þætti sem hafa áhrif á umhverfið. Í reglugerðunum eru settar fram kröfur um hvaða upplýsingar þurfa og eiga að vera til staðar í handbókum ætluðum neytendum, á vefsíðum í/eða í tengslum við sölu.

Tilskipunin um visthönnun orkutengdra vara er lagagrundvöllur fyrir kröfur um visthönnun. Evrópska efnahagssvæðið getur sett fram kröfur um orkutengdar vörur sem hafa áhrif á orkunotkun þegar þær eru notaðar. Kröfunum  fyrir hverja vöru fyrir sig er framfylgt með Evrópusambandsreglugerðum.

Visthönnun vöru - orkusparnaður

Alþingi afgreiddi lög um breytingu á lögum nr. 42/2009 um visthönnun vöru sem notar orku með síðari breytingum. Markmið lagabreytinganna var að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/125/EB frá 21. október 2009, um ramma til að setja fram kröfur varðandi visthönnun að því er varðar orkutengdar vörur. Gildandi lög eru byggð á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/32/EB en henni hefur verið breytt í veigamiklum atriðum, aðallega hvað varðar gildissvið, en tilskipun 2009/125/EB tekur til allra orkutengdra vara í stað þess að ná eingöngu til vara sem nota orku. Margar orkutengdar vörur búa yfir miklum möguleikum til umbóta og ná þannig að draga úr umhverfisáhrifum og ná fram auknum orkusparnaði með betri hönnun. Eitt af meginmarkmiðum tilskipunarinnar er að stuðla að því að hönnun á vörum sem tengjast orkunotkun verði með þeim hætti að viðkomandi vara nýti orkuna sem best og dragi þannig úr áhrifum orkunotkunar á umhverfið eins og losun gróðurhúsalofttegunda. Undir tilskipunina og efni frumvarpsins falla ekki einvörðungu vörur sem nota, framleiða, flytja eða mæla orku heldur gætu ákveðnar orkutengdar vörur fallið þar undir, til dæmis vörur sem notaðar eru í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, eins og gluggar, einangrunarefni eða tilteknar vörur sem ætlaðar eru fyrir vatnsnotkun, t.d. sturtuhausar eða kranar.