Stefnumótun Evrópusambandsins til ársins 2020 felur í sér þrjú markmið:

  • Að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 20% samanborið við losun árið 1990.
  • Að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa verði 20% af heildarorkunotkun í Evrópusambandinu ásamt því að sett eru sérstök landsmarkmið fyrir aðildarríki.
  • Að orkusparnaður verði 20% samanborið vð spár.

Visthönnun orkutengdra vara og orkumerkingar er stór þáttur í því að ná fram þessum markmiðum. Ákveðnar orkutengdar vörur verða að uppfylla kröfur um visthönnun og/eða orkumerkingar en  þær miða að því að betrumbæta áhrif vara á umhverfið í gegnum líftíma þeirra.

Meðal verkefna Mannvirkjastofnunar eru visthönnun vöru og orkumerkingar. Kröfur um visthönnun orkutengdra vara og orkumerkingar byggjast á samræmdri löggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu sem innleiddar eru hér á landi með lögum nr. 42/2009 um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun og lögum nr. 72/1994 um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi vörur sem tengjast orkunotkun og reglugerðum sem á þessum lögum byggja.

Tilgangur laga um visthönnun er að stuðla að visthönnun orkutengdra vara sem tengist orkunotkun með það að markmiði að efla hönnun, framleiðslu, markaðssetningu og notkun á vörum sem eru umhverfisvænar, með minni orkunotkun og umhverfisálag að leiðarljósi. Lögin skulu tryggja samræmi í visthönnun innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Tilgangur laga um orkumerkingar er að stuðla að því að orka sé notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti með því að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um orkunotkun og hávaðamengun vara sem þessi lög ná til, svo og áhrif á umhverfi auk annars er varðar rekstur þeirra. Lög um orkumerkingar vara skulu tryggja samræmi í merkingum og stöðluðum upplýsingum vara sem tengjast orkunotkun innan Evrópska efnahagssvæðisins og frjálst flæði á slíkum vörum á sameiginlegum innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.