Á sumrin fara menn gjarnan að huga að viðar- og fúavörn grindverka, sólpalla og viðarveggja. Því er ástæða til að minna á að sjálfsíkviknun getur orðið í tuskum sem notaðar hafa verið til að bera olíu á yfirborð úr tré. Sjálfsíkviknunin getur ekki gerst í dósinni og gerist ekki heldur þegar olían er borin á yfirborðið. Hún getur hinsvegar gerst þegar olíublautum tuskum er safnað saman í einn haug.

Dæmi eru um að eldri timburhús og sumarbústaðir hafi brunnið vegna þess að olíublautum tuskum og penslum hefur verið safnað saman í haug eða í poka og þetta svo skilið eftir í húsinu eða á sólpallinum. Nokkrum klukkustundum síðar kemur upp eldur.

En hvernig gerist sjálfsíkviknun vegna olíu? Þegar búið er að bera olíuna á viðinn gengur hún í efnasamband við súrefni loftsins, sem gerir það að verkum að olían getur þornað og harðnað. Við þetta efnasamband verður til örlítil orka, í formi hita. Undir venjulegum kringumstæðum hverfur þessi örlitli hiti þegar yfirborðið sem olían var borin á kólnar og engin hætta er á sjálfsíkviknun. Eins er engin hætta á sjálfsíkviknun þegar efnið er í dósinni. Hinsvegar er það vel þekkt staðreynd að þegar tuskur eru bleyttar í olíu og svo safnað saman í haug, eða settar saman í poka, að þá nær ekki sá örlitli hiti sem myndast að leiðast út úr haugnum. Hitinn í haugnum vex því smátt og smátt. Því heitara sem verður í haugnum, því meiri orka myndast. Hitinn verður sífellt meiri og að lokum kviknar í haugnum. Þetta er það sem kallast sjálfsíkviknun.

Sjálfsíkviknun getur gerst í fjölmörgum mismunandi efnum. Þekkt er að blautt hey, sem sett er inn í hlöðu og safnað í stóran haug, geti leitt til sjálfsíkviknunar. Eins getur kviknað í kornmat sem geymdur er í stórum sílóum. Hið sameiginlega er að efninu er safnað saman í svo stóra hauga að hin örlitla orka sem myndast í miðju haugsins, nær ekki að kælast út í gegnum yfirborð haugsins, samtímis sem súrefni á nokkuð greiðan aðgang inn að miðju haugsins. Slíkar aðstæður eru einmitt oft fyrir hendi þar sem verið er að geyma hey. Margar hlöður hafa brunnið af þessari orsök.

Hvernig má svo koma í veg fyrir svona bruna? Með því að breiða sem mest úr tuskunum þannig að loft eigi sem greiðastan aðgang að þeim. Þegar tuskurnar eru orðnar þurrar er í lagi að safna þeim saman til seinni tíma nota.