Leiðslur (lausataugar) flytja rafmagnið frá innstungunum í raftækin. Stundum þarf að nota fjöltengi (fjöltengla) og þá er vert að hafa í huga að ekki er gott að hafa mörg orkufrek raftæki tengd í eitt og sama fjöltengið og að varasamt getur verið að tengja saman fjöltengi. Einnig er varasamt að flytja rafmagn langar leiðir með grönnum framlengingarleiðslum. Mikilvægt er að þessi rafbúnaður sé heill og óskemmdur. Brotnar klær og leiðslur með skemmdri einangrun bjóða hættunni heim. Jafnframt þarf að gæta þess að raftæki sem eiga að vera jarðtengd séu tengd í jarðtengdar innstungur og jarðtengingin ekki rofin með ójarðtengdu fjöltengi eða framlengingarleiðslu.

Eru leiðslur í gangvegi eða undir gólfteppum?
Liggja leiðslur þar sem þær geta klemmst, t.d. milli stafs og hurðar?
Er gat eða sjáanlegt slit á leiðslum?
Er þannig gengið frá klóm að sést í litaða einangrun víranna í leiðslunni?
Eru tæki sem eiga að vera jarðtengd í ójarðtengdum innstungum?
Liggja leiðslur í haug eða upprúllaðar þegar þær eru í notkun?

Ef þið svarið öllum spurningunum neitandi bendir það til þess að ágætt ástand sé á leiðslum og klóm á heimili ykkar.