Rafmagnstaflan er hjarta rafkerfisins í hverju húsi. Um hana fer allt rafmagn sem notað er á heimilinu. Öryggin í rafmagnstöflunni eiga að varna því að of mikið álag eða skammhlaup valdi tjóni. Í eldri töflum eru bræðivör sem skipta þarf um þegar þau springa en í nýrri töflum eru varrofar sem slá út við bilun eða of mikið álag. Gamlar og illa farnar rafmagnstöflur geta verið hættulegar, ekki síst ef þær eru úr tré eða stað- settar inni í skápum þar sem nóg er um eldsmat. Í slíkum tilfellum er brýnt að láta löggiltan rafverktaka kanna ástand rafmagnstaflna og gera úrbætur áður en skaðinn er skeður. Bent skal á að í öllum rafmagnstöflum er mikilvægt að hafa skýrar og læsilegar merkingar sem sýna m.a. hvaða öryggi eru fyrir hvern húshluta og hversu sterk þau eru.

Er rafmagnstaflan gömul trétafla?
Sést í bera víra eða tengingar í töflunni?
Er búnaður töflunnar skemmdur eða brotinn?
Springa öryggin oft eða slá út?
Eru lélegar eða engar merkingar í töflunni?
Er rafmagnstaflan án lekastraumsrofa?

Ef þið svarið öllum spurningunum neitandi bendir það til þess að ágætt ástand sé á rafmagnstöflu á heimili ykkar.