Öll rafföng sem markaðssett eru á Íslandi skulu uppfylla ákvæði um öryggi sem fram koma í reglugerð um raforkuvirki, nr. 678/2009 (7. gr.) og einnig ákvæði um rafsegulsamhæfi sem sett eru fram í reglugerð um sama efni, nr. 270/2008.

Framleiðendur og/eða innflytjendur bera ábyrgð á að ákvæðum ofangreindra reglugerða sé fylgt. Faggiltar skoðunarstofur í umboði rafmagnsöryggissviðs Mannvirkjastofnunar sjá með virkri markaðsgæslu til þess að rafföng uppfylli þau skilyrði sem sett eru í reglugerðunum.

CE-merkingin er yfirlýsing framleiðanda um að varan uppfylli kröfur tilskipana sem um hana gilda á Evrópska efnahagssvæðinu og að við mat á samræmi hafi verið beitt þeim aðferðum sem tilteknar eru í viðkomandi tilskipunum. Um CE-merkinguna gilda ákveðnar reglur varðandi lögun, stærð og þess háttar.