Tenglar til heimilisnota, þ.e. hefðbundnir einfasa 16A tenglar, þola hámarksstraum (16A) aðeins í skamman tíma í senn og ætti því ekki að nota til hleðslu rafbíla nema hleðslustraumurinn sé
takmarkaður við 10A að hámarki. Sé það ekki gert er hætta á ofhitnun og bruna í tenglinum. Í þeim tilvikum sem hleðsluaðferð 2 er beitt skal þess gætt að öll þyngd á stjórnboxi með öryggisbúnaði sem komið hefur verið fyrir á hleðslustreng, hangi ekki í tenglinum, það getur haft í för með sér ofhitnun og bruna í honum.

Rafbíla skal hlaða frá tengistöðum sem sérstaklega eru til þess ætlaðir. Tengistaður er sá staður sem rafknúið farartæki tengist fastri raflögn, tengill eða inntak á bíl. Hver tengistaður skal einungis
fæða einn rafbíl. Nota skal sérstaka hleðslustrengi sem ætlaðir eru til hleðslu farartækisins. Slíkur strengur skal hæfa þeim aðstæðum sem vænta má, t.d. með tilliti til áverkahættu og hita- og kuldaþols. Honum skal stinga í samband í viðeigandi tengli eða fasttengja raflögn á tengistað.

Í lögn að tengistað, þ.e. þeim stað sem rafbíll tengist raflögninni, skal vera jarðleiðari, PE-leiðari,ekki PEN-leiðari.

Sérhver tengistaður skal varinn með yfirstraumsvarnarbúnaði og bilunarstraumsrofa (lekastraumsrofa) með málbilunarstraum ekki hærri en 30mA, sem eingöngu verja þennan tiltekna tengistað.

Bilunarstraumsrofar skulu vera af gerð A eða B eftir því sem við á. Í flestum tilvikum henta bilunarstraumsrofar af gerð B best. Bilunarstraumsrofa af gerðinni AC skal ekki nota í þessum tilgangi.

Tenglar skulu staðsettir eins nálægt stæði þess rafbíls sem hlaða skal og mögulegt er. Þeir skulu vera fast uppsettir. Ekki er leyfilegt að nota færanlega tengla, t.d. á framlengingarsnúru, til hleðslu
rafbíla. Hver tengill skal einungis fæða einn rafbíl.

Hleðslustrengir skulu hæfa notkun og aðstæðum á hleðslustað, þá má ekki framlengja, t.d. með fjöltengjum eða framlengingarsnúrum, vegna hættu á hnjaski og ofhitnun. Undir engum kringumstæðum mega hleðslustrengir liggja þar sem hætta er á að þeir verði fyrir hnjaski, s.s. yfir vegi, gangstéttar eða stíga.