Ekki má hefja vinnu í nánd við háspennulínur, nema að fyrir liggi heimild og upplýsingar um línuna frá eiganda hennar eða ábyrgðarmanni viðkomandi rafveitu.

Afmarka skal vinnusvæðið með öryggisborðum eða öðrum viðeigandi tálmum. Ef talin er þörf á aðmerkja svæðið sérstaklega skal það einnig gert.

Afar mikilvægt er að þeir sem starfa nærri háspennulínum, afli sér upplýsinga um þá hættu sem getur skapast við slíkar aðstæður.

Þegar unnið er með vinnuvélum nálægt háspennulínum er nauðsynlegt að fylgja leiðbeiningum um fjarlægðarmörk samkvæmt töflu 1.

Uppgefnar fjarlægðir gilda fyrir vinnuvélar í heild og einstaka hluta þeirra s.s. lyftiarma, burðarvíra o.þ.h. og einnig fyrir þá byrði sem tengist vélunum hverju sinni.

Enginn má aka vinnuvélum í námunda við háspennulínur fyrr en verkstjórnandinn hefur tilkynnt að nauðsynlegar öryggisráðstafanir hafi verið gerðar.

Akið ekki vinnuvélum í námunda við háspennulínur nema á undan fari kunnáttumaður til að ákvarða fjarlægðir.
Reynið ávallt að hafa loftlínur í sjónmáli þegar vélarnar eru á hreyfingu.

Hafið í huga að erfitt er að gera sér grein fyrir hæð lína með því að horfa á þær.

Þurfi að lyfta byrði yfir háspennulínu skal áður rjúfa spennu af henni og jarðtengja.